Steinunn Guðnadóttir

 

Ísland í forystu - lífræn framleiðsla.

 

 

Ég vil beita mér fyrir því að Ísland verði í forystu í lífrænni framleiðslu.  

Lífrænar aðferðir byggjast á því að framleiða hágæða afurðir þar sem verndun lífríkis, velferð búfjár og heilsufar neytenda er haft að leiðarljósi. 

 

Íslensk stjórnvöld hafa unnið að setningu viðeigandi lagareglna um framleiðslu, merkingar og eftirlit með lífrænni framleiðslu, fyrst með setningu laga og reglugerðar 1994-1995, og nú síðast með  því að innleiða reglugerð ESB.  Þau hafa hinsvegar ekki gert framkvæmdaáætlun eða markað stefnu um þróun og uppbyggingu lífrænnar framleiðslu og engin markmið hafa verið sett þar að lútandi, ólíkt því sem stjórnvöld flestra ríkja Vestur Evrópu hafa gert.

 

Lífræn framleiðsla lýtur eftirliti faggiltra vottunaraðila, allt frá ræktun afurða til loka pökkunar þeirra í neytendaumbúðir.  Á þann hátt er framleiðsluferill vöru tryggur og komið er í veg fyrir villandi merkingar og markaðssetningu. 

 

Fjármagn til lífrænnar framleiðslu hér á landi hefur verið takmarkað og ekki fullnýtt af hálfu bænda, þannig að þar virðist vanta upplýsingar og hvatningu.  Skilgreina þarf nánar í hverju lífræn aðlögun í framleiðslu felst og gera þarf ráð fyrir þremur til fimm árum í aðlögunartíma. Auka þarf fræðslu og rannsóknir um lífrænar aðferðir á Íslandi í menntakerfi landsins.   

 

Fjölmargar atvinnugreinar geta hagnýtt sér lífrænar og sjálfbærar aðferðir til sóknar í byggða- og markaðsþróun, þar með talin ýmsar sjávarnytjar, margvíslegur iðnaður, matreiðsla, umhverfisvernd og heilbrigðisþjónusta. Þá styðja neytendasamtök og starfsmenn í matvælagreinum lífræna þróun.

 

Lífræn framleiðsla hefur jafnframt jákvæð áhrif á samfélög dreifbýlishéraða.  Hún skapar atvinnu, leiðir til sparnaðar í ýmsum rekstrarþáttum, eykur áhuga á framleiðslu og þjónustu sem í boði er á svæðinu og umfram allt bætir ímynd viðkomandi svæðis í augum ferðamanna, fjárfesta og mögulegra íbúa.  

 

Lífræn framleiðsla styrkir hollustu íslenskra afurða og bætir ímynd Íslands.

 

Steinunn Guðnadóttir fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði gefur kost á sér í 6 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi þann 11. nóvember n.k.   www.steinunn.is